Einelti og ofbeldi, algeng reynsla stúlkna og kvenna á einhverfurófi

Stúlkur og konur á einhverfurófi deila mörgum sérkennum sem auðvelt er að bera kennsl á ef þekking er fyrir hendi. Eitt af því sem við deilum líka því miður allt of margar hver með annarri, eru áföll og erfið lífsreynsla í tengslum við mannleg samskipti.

Konum á einhverfurófi gengur verr en öðrum að lesa í fyrirætlan annarra og ásetning sem legið getur að baki samskiptum. Heiðarleiki og hreinskiptni, að segja það sem við meinum og gera það sem við segjum, er til skiptis dyggð og löstur í okkar fari. Dyggð þegar öllum líkar heiðarleg framganga, löstur þegar við særum aðra með hreinskilni og hispurslausum athugasemdum. Við sjáum oft ekki hvað aðrir geta verið sparir á heiðarleikann og gjöldum þá yfirsjón oft dýru verði.

Við leitum að mynstri til að læra á heiminn og leggjum sífellt saman tvo og tvo til að fá út það sem við höldum að hljóti að vera fjórir. Einhver segir falleg orð, brosir til mín og segir að ég sé frábær. Þá eru allar líkur á að viðkomandi sé afar vel við mig, enda myndi ég sjálf aldrei segja eitt og meina annað.

Stundum er fagurgali samt ekkert annað og meira en það. Fagurgali. Aðferð til að ná fram vilja sínum, hver sem hann kann að vera.

Stúlkur á einhverfurófi eiga einhverra hluta vegna erfitt með að biðja um hjálp. Okkur finnst við eiga að geta sjálfar, verið sjálfbjarga. Það kostar mikla æfingu að læra að nota aðstoð annars fólks, taka við gagnrýni með opnum hug og bera skilning eða fyrirætlanir undir aðra.

Í ofansögðu felst einn stærsti vandi sem blasir við stúlkum og konum á einhverfurófi. Hvenær er öruggt að treysta fólki og hvenær ekki?

Þetta er ein helsta ástæða þess að ég vil auka meðvitund og þekkingu á einkennum stúlkna og kvenna á einhverfurófinu. Þegar sögur okkar eru skoðaðar er allt of áberandi hvað einelti og ofbeldi í nánum samböndum koma oft fyrir. Því er hægt að breyta.

Sjálf á ég sögu um hvort tveggja, sem ég hef áður skrifað um, annars vegar á alþjóðlegum degi gegn einelti í fyrra og hins vegar í tengslum við #höfumhátt og #metoo bylgjurnar nú í vetur. Þær fara hér á eftir í óbreyttri mynd.

Einelti

Í dag, 8. nóvember, er árlegur baráttudagur gegn einelti. Ég er ein af þeim sem gengið hafa í gegnum þá reynslu, í 10 ára bekk Engidalsskóla í Hafnarfirði. Ég eignaðist nýja vinkonu sem kom í bekkinn úr öðrum bæ en einn daginn þegar ég kom í skólann var ég læst úti, í orðsins fyllstu merkingu – og líka óbeint. Við tók mjög einmanalegur tími þar sem ég þurfti iðulega að fara inn í skólann gegnum kennarastofuna og labba skólann endilangan til að komast í tíma, enginn lék við mig og enginn talaði við mig. Ég var ósýnileg. Stjórnarndi eineltisins var mín fyrrverandi nýja vinkona og hinir krakkarnir í bekknum voru mismiklir þátttakendur, sumir gerðust nokkurs konar hirðsveinar foringjans en aðrir litu meira í hina áttina.
Kennarar hljóta að hafa séð hvað var í gangi, þó ekki væri nema vegna tíðra heimsókna í þeirra inngang, en ég veit ekki til að neitt hafi verið rætt eða gert.
Ég sagði engum frá heima, skammaðist mín of mikið, faldi mig frekar í hraungjótum en að fara heim þegar ástandið var erfitt.
Frímínútur voru sérstaklega vondur tími, þá á maður að leika við hina og þessi frítími getur verið óralengi að líða þegar barn er að reyna að fela það hvað það er aleitt.
Ég losnaði úr þessu ástandi við tvennt: forsprakkinn flutti aftur úr bænum og hætti að beita sér og dvöl minni í Engidalsskóla lauk eftir 10 ára bekkinn, en þá var börnum úr ólíkum hverfum raðað upp á nýtt í bekki í Víðistaðaskóla.
Í Víðistaðaskóla var ég síðan áhorfandi að og jafnvel þátttakandi í einelti gagnvart dreng sem átti mjög erfitt uppdráttar. Upplifunin af því var svipuð, málið var ekki tæklað og við vorum ekkert áminnt fyrir andstyggilegheitin.
Reynsla af einelti í bernsku yfirgefur mann aldrei. Ég hef t.d. alltaf átt erfitt með að mæta í veislur, sérstaklega ef ég kem ein. Einkum ef um er að ræða borðhald, þá er ég oft mjög hrædd um að fá ekki sæti. Sem er auðvitað mjög ólógískt – að t.d. á árshátíð í vinnunni kæmi upp staðan; uuu, það er enginn stóll fyrir Guðlaugu, best hún fari bara heim, hún er hvort sem er svo glötuð. Auðvitað gerist það ekki, en það er nú einu sinni svo að taugafrumurnar eru að mynda tengingar þegar maður er 10 ára, tengingar sem viðhaldast ævina á enda, þó svo manni takist að yfirvinna áhrifin með auknu sjálfstrausti og rökhugsun.
Ég sæki líka lítið í hópa, sérstaklega stelpuhópa. Hef aldrei verið í saumaklúbbi og hékk oftast bara með strákunum á djamminu (það litla sem ég stundaði af því).
Ég er sannfærð um, bæði af eigin reynslu og ýmissa annarra, að mjög mikil tengsl séu milli þess að hafa einkenni tengd einhverfu og verða fyrir einelti. Skortur á færni til að lesa í óyrt skilaboð, augnagotur og annað slíkt, erfiðleikar við að setja mörk gagnvart öðru fólki, óhófleg sannsögli (kunna ekki að ljúga og vita ekki hvenær er félagslega viðurkennt að lygi sé rétta leiðin) og ýmislegt fleira spilar þarna inní.
Eins virðist kjörlendi eineltis vera afmarkað rými þar sem fólk þarf að vera saman gegn vilja sínum. Til dæmis í skólastofu, þar sem manni leyfist ekki að yfirgefa svæðið, eða vinnustaðir þar sem hópurinn hristist illa saman. Svo ekki sé nú minnst á pólitík, þar sem kjörnir fulltrúar þurfa að dúsa með fólki sem þeim er jafnvel mjög í nöp við árum saman.

Stjórn aðstæðna, hvort sem er kennsla/skólastjórn, starfsmannastjórn eða annars konar yfirsýn er nauðsynleg til að halda einelti í skefjum. Og fræðsla og opin umræða um þessa mjög svo neikvæðu tilhneigingu sem mannlegt samfélag virðist þróa með sér ef aðstæður eru fyrir hendi.
Sem betur fer hefur mjög margt breyst frá því 1982, í dag skilja börn að við erum ekki öll eins, það er fylgst betur með málum og oftast nær brugðist við á uppbyggilegan hátt.
Enn er þó langt í land að einelti heyri sögunni til. Við þurfum öll að hjálpast að við að stuðla að eineltislausu samfélagi og í dag er mitt framlag fólgið í þessari sögu, sem ég hef svosem sagt ýmsum í gegnum tíðina en kannski aldrei svona formlega.
(Og jú, ég er enn að naga mig í handabökin yfir því að ég hafi greinilega gert eitthvað af mér sem ég hefði ekki átt að gera, til að kalla þetta erfiða ár yfir mig. Og jú, ég veit að markviss útskúfun í heilt ár er yfirdrifin refsing fyrir hvað það nú var sem ég gerði. Og að ég var 10 ára, eins og Magni er í dag. En, þið vitið, taugatengingarnar… Oooooog, já ég veit að ég er með hjartað úti á erminni þessa dagana, eftir nýlega reynslu sem birtist mér sem útskúfun úr hópi, ég ætla bara að leyfa mér að hella úr skálum mínum, þið læðist bara út ef ykkur leiðist.)
#dagurgegneinelti #égerekkitabú

Ofbeldissambönd

Hann segir að þú sért honum ómissandi, sú eina sem skilur hans rétta sjálf. Fólkið hans ósanngjarnt og vilji honum illt. Annað en þú, sem sérð allt svo skýrt. Þú treystir honum og sýgur í þig athyglina.
Vinir þínir og fjölskylda eru efins. Þú ákveður samt að taka slaginn og afsanna hrakspárnar. Þú ert svo sterk, svo hrein og bein. Þú veist hvað þú vilt, þetta fer allt vel.
Smátt og smátt verður athyglin rannsókn. Allt sem þú gerir, allt sem þú ert, fer undir smásjá. Hver var að hringja? Við hvern talaðirðu? Af hverju hlærðu svona hátt, hvaða lykt er þetta af þér? Brosin þín eru ekki endurgoldin, heldur tortryggð. Manneskjan sem þú ert, sú sem hann kynntist, er orðin öll á skjön, passar ekki. Á að vera öðruvísi, gera annað, vilja annað. Þú ert ljót, leiðinleg, vitlaus og vond. Gölluð. En alls ekki fara!
Heimilið hættir að vera athvarf, verður búr. Vinirnir varasamir, trufla jafnvægið, ógna skapinu. Best að hafa lokað.
Þú byrjar að gleyma hver þú ert. Sérð bara efa og hryggð í speglum, finnur þig ekki.
Þetta gerist hratt. Sterka, glaða skellibjallan vængbrotnar. Það krefst sjálfstrausts að fljúga.
Þú ert strá í vindi, leggst niður um stund, en sem betur fer er rótin þín djúpstæð. Það er ekki í að visna, þú teygir þig aftur til sólar.
Það hlýnar. Þú ferð. Verður frjáls.
Ekki aftur. Aldrei aftur. Aldrei aftur hann.
Þetta er algeng frásögn, gömul og ný. Sterkustu manneskjur geta upplifað hana og hún endar ekki alltaf vel.
Ég var heppin, mín saga var stutt. Tæp tvö ár. Yfir 20 ár síðan, eins og gerst hafi í gær.
Lengi á eftir herti ég mig upp með því að hlæja og gera grín. Kallaði þessi ár spænsku veikina eftir þjóðerni mannsins sem um var að ræða. Skæð veiki. Frostavetur. Heppin að lifa af.
Stundum er betra að hlæja en gráta, og hvort tveggja læknar.
Ég sá ekki ofbeldið fyrr en ég stóð í því miðju. Mig skorti leiðarvísi, en ekki skömm. Skömm hjálpar engum nema þeim sem vill að þú þegir.
Ég vil þakka unga fólkinu, ungu konunum, sem eru hættar að þegja, hækka heldur róminn stig af stigi og kenna þolendum að hafa hátt. Það er mikilvægt, það er sterkt. Það er gagnlegt.
Hávaðinn kennir okkur að þekkja merkin, rata út. Við rennum á hljóðið.
Þessi frásögn er 
hávaðinn minn. Mín rödd í fjöldann. #höfumhátt #metoo

Framvinda

Spinna þráð,

prjóna og rekja sig gegnum lífið.

Ganga frá lausum endum,

sauma saman.

Úr einum samfelldum þræði vefast stór og mikil listaverk, sem ganga mann fram af manni – uppskriftin gömul. Þessu lík er mannsævin, lykkjan sem fyrst er undin er grunnurinn að öllu mynstrinu, miðjan í vefnum. Öll spor manns eru samhangandi.

Gaman væri að sjá líf sitt með augum skaparans, hann byrjar öll mynstrin með samskonar lykkju og framan af eru umferðirnar svosem hver annari líkar. En dúkar vefarans mikla eru ofnir mismunadi bryddingum, innihalda ólíkar rósir.

Ég rek mig eftir þræðinum, seinna sé ég mynstrið.

spinna vef

Kryptónít

Öllum ofurkröftum fylgir veikleiki. Stundum er sjálfur styrkleikinn veikleiki og stundum fylgir einhvers konar Akkilesarhæll eða mistilteinn.

Takið eftir, takið eftir, takið eftir

Skörp athyglisgáfa er vissulega ofurkraftur sem þó nýtist misvel eftir aðstæðum.

Ég var til dæmis að reyna að leggja mig áðan inni í sjónvarpsherbergi hjá mömmu og pabba. Þægilegur sófi, hlýtt og létt teppi, enginn heima, rökkur og kyrrð. Gerist ekki betra, nema hvað á veggnum er klukka. Sem tifar. Operation „leiða hjá sér klukkuna“ stóð yfir í nokkrar mínútur. Og nú veit ég að tifið er ekki bara tví- heldur þrískipt. Tih tah tih tah tih tah bætir smám saman við sig þriðja slaginu, tih klikk tah tih klikk tah tih klikk tah klikk. Setti púða á eyrað sem virkaði ekki. O jæja. Legg mig seinna.

Hey þú hey þú heý þú hey þú!

Í gær kepptum við Tómas og Sólveig í Útsvarinu. Að vanda var gaman hjá okkur og lukkan var með okkur í liði. Stuð!

Það truflar mig alls ekkert eða stressar að vera í útsendingu. Það sem stuðar mig er af allt öðrum toga, upprunnið í mínu eigin taugakerfi. Í gær var það nokkurn veginn þetta, sjá mynd:

  • Skór sem þrengir að vinstri rist (allir skór gera það). Meiðir eftir því sem á líður
  • Sokkabuxurnar voru með einhverri krumpu við vinstri mjaðmakamb sem vildi endalaust láta vita af sér
  • Brjóstahaldari er alltaf óþægilegur, svipað og að vera með stein í skónum
  • Hljóðneminn er með senditæki sem er fest innundir brjóstahaldarann á bakinu. Fyrir mína parta mætti eins setja íspinna þarna og finna hann bráðna hægt og rólega
  • Kjóllinn er með sauma á ermunum sem mynda „band“ um upphandlegginn. Kveikir hjá mér endalausa löngun til að toga í sauminn og losa frá húðinni
  • Hálsmen eru myllusteinar sem síga í með tímanum. Þetta er fislétt en verður samt eins og gaddavír að lokum
  • Í byrjun þáttarins var hátalari fyrir aftan sætin okkar sem spilaði stef í síbylju, lágt að vísu. Mér fannst það aldrei ætla að hætta, nánast lamdi mig í eyrun

Við þetta má bæta hreyfikækjum í öxl og fæti sem ég held í skefjum eins og ég get við svona aðstæður. Þeir magnast hins vegar með álagi, streitu og þreytu. Gaman að því.

Þetta var ekkert sérlega vondur dagur, bara eins og venjulega. Áhrifin af svona áreiti virka á batteríin mín svipað og lélegt samband á síma, eða personal hotspot. Tækið hitnar og hleðslan lekur út á methraða. Það verður svo til þess að næmnin á áreitið eykst og loks fer einhver hluti þess yfir þolmörkin. Þá er það bara heim í hellinn. Ekkert sem dugar nema hvíld.

Mótstöðuaflið er misjafnt eftir dögum, engar töfralausnir til svo ég viti nema ró og næði til mótvægis. Og æðruleysi. Og húmor fyrir sjálfri sér.

Algeng einkenni einhverfu hjá stúlkum/konum

Listinn hennar Sam Croft er fín yfirferð þegar konur á einhverfurófinu eru annars vegar, sjá hér: Unoficcial check list

Hún skiptir listanum niður í nokkra flokka undir yfirskriftunum: a) Djúpur hugsuður, b) Saklaus/hrekklaus, c) Flótti og vinátta, d) Fylgikvillar, e) Félagsleg samskipti, f) Athvarf í einveru, g) Næm/viðkvæm, h) Sjálfskynjun, i) Ráðvillt, j) Orð, tölur og mynstur, (valkvætt) Verk- og hreyfifærni.

Margt er þarna fyrirsjáanlegt, eins og að vera einræn, glögg á smáatriði, með gott og oft sjónrænt minni, afmörkuð áhugasvið og klaufaleg í félagslegum samskiptum. Allskonar nördaskapur, ást á tónlist, textum og ljóðum, hreinskilni, sann- og bersögli er líka á þessum lista.

Aðra þætti er ekki víst að fólk tengi almennt við einhverfurófið, eins og að vera liðamótalaus (ofliðug), verða fyrir einelti, upplifa ofbeldi í nánum samböndum, skorta tímaskyn, vera berdreymin, mikill dýravinur, kærulaus í fatavali og með óstýrilátt hár. Já og mataróþol. Oft er líka talað um aukna tilhneigingu til að fá marbletti.

Svo hefur mér verið sagt að einhverfar konur prjóni mikið og hekli og að nafnabreytingar séu algengar í þeim hópi. Það skyldi þó aldrei vera?

En hvað sem því líður, þá tikka ég í nánast öll boxin, eins og meðal annars sést á þessari mynd, þar sem ég er ógreidd, í fötum sem hafa verið tínd af tilviljun upp úr ferðatösku (eftir að vera hent í hana án mikillar umhugsunar) í kórferðalagi (halló textanörd) með glutenfrían drykk í glasi og annan fótinn öfugsnúinn. Frekar normalt allt, fyrir mig að minnsta kosti 😉

10394001_10203321226124889_7717369720755611926_n

Nú er ég ekki að segja að þessi mynd sé óbrigðult hjálpartæki við að koma auga á einhverfar konur, en þetta er klárlega ein útgáfan.