Kryptónít

Öllum ofurkröftum fylgir veikleiki. Stundum er sjálfur styrkleikinn veikleiki og stundum fylgir einhvers konar Akkilesarhæll eða mistilteinn.

Takið eftir, takið eftir, takið eftir

Skörp athyglisgáfa er vissulega ofurkraftur sem þó nýtist misvel eftir aðstæðum.

Ég var til dæmis að reyna að leggja mig áðan inni í sjónvarpsherbergi hjá mömmu og pabba. Þægilegur sófi, hlýtt og létt teppi, enginn heima, rökkur og kyrrð. Gerist ekki betra, nema hvað á veggnum er klukka. Sem tifar. Operation „leiða hjá sér klukkuna“ stóð yfir í nokkrar mínútur. Og nú veit ég að tifið er ekki bara tví- heldur þrískipt. Tih tah tih tah tih tah bætir smám saman við sig þriðja slaginu, tih klikk tah tih klikk tah tih klikk tah klikk. Setti púða á eyrað sem virkaði ekki. O jæja. Legg mig seinna.

Hey þú hey þú heý þú hey þú!

Í gær kepptum við Tómas og Sólveig í Útsvarinu. Að vanda var gaman hjá okkur og lukkan var með okkur í liði. Stuð!

Það truflar mig alls ekkert eða stressar að vera í útsendingu. Það sem stuðar mig er af allt öðrum toga, upprunnið í mínu eigin taugakerfi. Í gær var það nokkurn veginn þetta, sjá mynd:

  • Skór sem þrengir að vinstri rist (allir skór gera það). Meiðir eftir því sem á líður
  • Sokkabuxurnar voru með einhverri krumpu við vinstri mjaðmakamb sem vildi endalaust láta vita af sér
  • Brjóstahaldari er alltaf óþægilegur, svipað og að vera með stein í skónum
  • Hljóðneminn er með senditæki sem er fest innundir brjóstahaldarann á bakinu. Fyrir mína parta mætti eins setja íspinna þarna og finna hann bráðna hægt og rólega
  • Kjóllinn er með sauma á ermunum sem mynda „band“ um upphandlegginn. Kveikir hjá mér endalausa löngun til að toga í sauminn og losa frá húðinni
  • Hálsmen eru myllusteinar sem síga í með tímanum. Þetta er fislétt en verður samt eins og gaddavír að lokum
  • Í byrjun þáttarins var hátalari fyrir aftan sætin okkar sem spilaði stef í síbylju, lágt að vísu. Mér fannst það aldrei ætla að hætta, nánast lamdi mig í eyrun

Við þetta má bæta hreyfikækjum í öxl og fæti sem ég held í skefjum eins og ég get við svona aðstæður. Þeir magnast hins vegar með álagi, streitu og þreytu. Gaman að því.

Þetta var ekkert sérlega vondur dagur, bara eins og venjulega. Áhrifin af svona áreiti virka á batteríin mín svipað og lélegt samband á síma, eða personal hotspot. Tækið hitnar og hleðslan lekur út á methraða. Það verður svo til þess að næmnin á áreitið eykst og loks fer einhver hluti þess yfir þolmörkin. Þá er það bara heim í hellinn. Ekkert sem dugar nema hvíld.

Mótstöðuaflið er misjafnt eftir dögum, engar töfralausnir til svo ég viti nema ró og næði til mótvægis. Og æðruleysi. Og húmor fyrir sjálfri sér.

Leave a Reply