Ég er Beta

Hvaða sögupersóna úr bókum Astridar Lindgren ert þú?

Af og til rekst ég á netpróf sem segja til um hvort við erum Lína, Ronja, Emil eða aðrir snillingar úr sögum Astridar Lindgren, en það vantar alltaf mína manneskju í þessi próf. Það vantar hana Betu, litlu systur Madditar.

madditt og beta

Beta er hrein og bein, hvatvís, huguð og fylgin sér. Hún hugsar út fyrir kassann og finnur sér leiðir í kringum reglur sem hún lærir og viðurkennir en finnst asnalegt að fylgja. Þannig fer hún með faðirvorið sjö sinnum í einu og klárar með því vikuskammtinn fljótt og vel.  Hún blótar líka inni í fataskáp á hverjum degi til að komast hjá því að láta bönnuð orð fjúka innan um annað fólk.

Ef orðið er til, af hverju má þá ekki gera það?

Beta er bókstafleg, neglir til dæmis nagla í spýtu inni í svefnherbergi sofandi foreldra sinna snemma morguns, þó svo henni hafi verið bannað að hafa hátt þegar þau sofa út. Áminnt um þetta svarar hún því til að henni hafi vissulega verið bannað að hafa hátt, en að það hafi aldrei komið fram að hún mætti ekki negla nagla í spýtu. 

Eins finnst henni út í hött að vera bannað að sleikja, því hvers vegna er orðið að sleikja til ef ekki má gera það sem það lýsir?

Mér þykir það (ekki) leitt…

Beta segir borgarstjórafrúnni til syndanna fyrir dónalega hegðun, kallar hana vitlausa. Vill svo alls ekki biðjast afsökunar á orðum sínum, enda veit hún að það var alveg satt sem hún sagði. Tilneydd lætur hún þó segjast og öskrar á kerlu: Mér þykir leiðinlegt hvað þú ert vitlaus!

Í annað skipti er hún spurð af fínni frú: Veistu hvað ég er? Og svarar: Já, en það get ég bara sagt inni í skápnum!

Ef Lína er með athyglisbrest og Emil ofvirkur þá er Beta einhverf.
Ákveðin, réttsýn, bókstafleg og sannsögul. Lærir tilneydd að virða asnalegar reglur en skilur ekki tvíræðni eða fals. Finnur patent leiðir til að leysa leiðinleg skylduverkefni, örugg svæði til að brúka munn og syngur sinn sannleik við eigið lag.
Og síðast en ekki síst, þá á hún heimsins bestu stórusystur 🙂

Ég er Beta.

Leave a Reply