Tapað fundið – að greinast fullorðin á einhverfurófi

Undanfarna mánuði hef ég verið að melta tvær spurningar sem ég fékk í greiningarferlinu, þegar niðurstöður lágu fyrir. Sú fyrri var: Hverju finnst þér greiningin breyta? og sú síðari: Heldurðu að það hefði komið þér að gagni að greinast sem barn?

Þó svo greiningin hafi verið staðfesting sem síst kom á óvart, fylgdu henni engu að síður margvíslegar tilfinningar. Rétt eins og raunin var með greiningar sona minna nokkrum árum fyrr. Fullvissan fækkar möguleikum, þrengir sjónarhornið.

Í raun finnst mér ég hafa fundið mig og týnt í senn. Um leið og mörgum spurningum var svarað, vöknuðu aðrar nýjar í staðinn.

Aha!

Ég skildi betur (og er enn að hlæja að því) þegar ég reyndi að fá starfsmannaferð BHM um árið til að fara til Stokkhólms í námsferð frekar en til Dublin að versla. „Moll“ eru í mínum huga pyntingaklefar sem soga úr mér allan kraft. Fræðsla um launakerfi háskólamenntaðra Svía var allt annað mál. Jätteroligt 😉

Eins var loks komin afsökun fyrir því að hafa þegið heimboð í „te“ um tvítugt og farið beint inn í eldhús gestgjafans að hella uppá og drekka umrætt te þegar þangað var komið. Og kannski skýringin á því að hann var ekkert að bjóða mér aftur. Já þetta er sönn saga. Það má hlæja 🙂

Uuuuu…?

En hvað af upplifunum mínum og minningum fortíðar stóðst skoðun og hvað var á skjön?

Gat ég til dæmis einhvern tímann eitthvað í þessum ballett?

Var ég vinamörg sem barn, eins og mig minnir, eða var Lena vinkona þessi dæmigerði eini vinur sem einhverfa krakkanum finnst nóg – og fullkomin á allan hátt?

Og hvað með það?

Fæst af þessu skiptir svosem máli. Ég er eins og ég hef alltaf verið. Hitt er víst að skilningur á eigin kenjum skiptir máli. Það er ákveðið öryggi í vitneskjunni.

Ég fyrirgef mér til dæmis frekar núna…

-fyrir að hafa ríka þörf fyrir einveru og að hverfa af og til inn í aðra vídd. Inn í hliðstæðu veröldina sem þessi bloggsíða heitir eftir. Bækur, myndir, prjón eða hekl. Ég veit að þetta er sjálfsbjargarviðleitni, ég er að hlaða batteríin, sækja mér orku og strauja taugavefina.

-að vera „þessi hnarreista“, óðamála, hreinskiptna, hrekklausa, óvægna og stundum kolruglaða mannvera sem ég er.

-að virka hrokafull og köld við vissar aðstæður, sem ég á annars svo erfitt með að kannast við þegar ég mæti spegli samferðafólksins.

-hringiðuna og sveiflurnar í heimilishaldi mínu, til dæmis síendurtekna undrun mína á því þegar strákarnir mínir spyrja mig hvað verður í matinn – og hvenær. Ég gleymi sjálf að borða heilu dagana þegar ég er ein. Þessar elskur halda mér við efnið.

Hverju hefði greining í bernsku breytt?

Fyrst dæmigerða, bókstaflega einhverfusvarið: það var ekkert hægt að greina mig í bernsku. Fólk þekkti ekki til og hefði líklega frekar stimplað mig sem frávik en unnið að því að leita samræmis í krafti fjölbreytileikans. Þannig var tíðarandinn þegar Jón Páll var sterkastur og Hófí fegurst. Fólk var mun meira dregið í dilka þá en nú.

Ég man þegar bekkjarsystir mín fékk gleraugu og grét úr sér augun af skömm. Í dag eru gleraugu svo óralangt frá að vera feimnismál. Heyrnartæki líka. Okkur hefur farið fram.

En…

Ef ég væri lítil í dag þá pant fá greiningu og viðeigandi stuðning strax!

Kannski slyppi ég þá við eineltisárið mitt og ýmsar aðrar hrellingar.

Kannski hefði ég þá fengið hrós en ekki skammir fyrir að klára reikningsbók annarinnar á einum degi. Fengið fleiri verkefni í stað þess að vera látin stroka út og endurtaka. Eða bíða.

Vonandi hefði ég samt ekki fengið einhvern súkkulaðikleinustimpil eða karakterinn verið slípaður af mér um of.

Þetta er verkefnið fyrir litlu stelpurnar í dag:

Í fyrsta lagi að koma auga á þær.

Í öðru lagi að passa upp á þær, styðja og efla.

En umfram allt, njóta þeirra á þeirra eigin forsendum – og leyfa þeim að njóta sín.

Leave a Reply