Miðaldra kona lærir mannleg samskipti

Ég er alltaf að læra. Ef ég skrifa einhvern tímann ævisögu þá verður þetta titillinn á henni.

Ég. Er. Alltaf. Að. Læra.

Jafnvel þegar ég vil ekki læra, þá læri ég. Hvernig væri annað hægt þegar augu og eyru taka endalaust eftir öllu sem fyrir þau ber?

En ég læri líka af reynslunni. Ó hvað ég læri af reynslunni. Og ó hvað það er oft erfitt og sárt. Sumt þarf ég að læra aftur og aftur. En nú ætla ég að hætta að væla og reyna að gera eitthvað gagn. Gera gott úr þessu öllu.

Speglun

Undanfarið hef ég viðað að mér öllu sem ég get um konur á einhverfurófi. Eðlilega, nýgreind á þessu rófi sjálf. Sem betur fer bætist í sarpinn á því sviði með hverjum deginum, það er að verða svo mikil vitundarvakning um kvenlegar hliðar rófsins.

Rauður þráður í þeim fróðleik er að stúlkur og konur á rófinu spegla. Við lærum svosem öll með speglun, það sjáum við alls staðar þar sem ungur lærir af eldri, hvort sem það er vídeó af kettlingi að þvo sér eins og mamman, eða barn að herma eftir eldra systkini.

Heilinn okkar er að hluta settur saman úr spegilfrumum. Þær eru meðal annars ábyrgar fyrir því að við kúgumst þegar aðrir kasta upp (afsakið erfiða líkingu, spegillinn í ykkur fór eflaust í gang við það eitt að lesa þetta).

Stelpur á rófinu virðast reiða sig mjög á speglun, langt fram eftir aldri, hvað varðar félagsleg samskipti. Sú speglun er misgagnleg og reynist ekki alltaf vel.

Að hlusta með því að tala

Þar sem fólk á einhverfurófi á erfitt með félagsleg samskipti, að láta þau flæða án umhugsunar og grípa óyrt skilaboð sér til gagns, reiðum við okkur á alls konar hjálpardekk þegar við lærum að umgangast aðra. Meðvitað eða ómeðvitað. Og hjólum svo inn í lífið með þessi blessuðu dekk dinglandi utan á hjólinu langt fram eftir aldri. Þó svo þau veiti kannski engan stuðning lengur og rekist jafnvel bara utan í aðra. Jafnvel þó við dettum um þau sjálf.

Eitt sem við virðumst gera, sem getur verið mjög pirrandi fyrir aðra, er að reyna að hvetja aðra til að tala við okkur með því að tala sjálf. Ef mig langar að vita eitthvað um þig, bið ég um það með því að demba á þig einhverju um mig.

Svo bíð ég eftir að þú speglir

En það er alls ekkert víst að þú gerir það. Kannski viltu bara losna frá þessari málóðu konu.

Og ef mig langar rosalega mikið að heyra hvað þú hefur að segja, þá tala ég bara enn meira.

Þetta er ekkert voðalega praktískt. Og þetta er frekar vandræðalegt þegar maður gerir sér grein fyrir að hafa stundað þetta atferli alla ævi. Góðu fyrirgefiði bara, þetta var ekki illa meint.

Ég þarf að beita mig hörðu við að skrifa þetta, ég hef svo oft skammast mín fyrir málæðið og fundið svo mikla höfnun í tengslum við það. En ég er að læra og verð að losa mig við þetta af sálinni til að geta haldið því áfram.

Sko til – ég er enn að demba á ykkur einhverju um mig. En hér hafið þið alla vega þann kost að hætta bara að lesa 😉

Að spyrja

Ég veit ekki hvað ég hef oft barmað mér yfir því að ég frétti aldrei neitt. Af hverju segir mér enginn neitt?

Vinnufélagi er allt í einu farinn til útlanda í heila önn, ég kem af fjöllum. Fólk fer í ferðalög og ég hef ekki hugmynd. Eitthvað mikilvægt gerðist og ég frétti það síðust. Þessi dæmi eru ótæmandi. Ég frétti ekki einu sinni kjaftasögur um mig sjálfa.

Ég veit það núna að þetta er vegna þess að ég kann ekki að spyrja. Ég kann ekki þennan hluta „small-talk“ sem er að spyrja aðra hvað þeir séu að plana, hvað þá langi að gera, hvað standi til. Ég hef svo sannarlega áhugann, vil vita, en þarf að læra að leita eftir þessum upplýsingum.

Því miður líður mér alltof oft eins og Sögu minni Norén, þegar hún byrjar að spyrja: viltu spjalla eða ekki? (Småprata eller inte?) Og hefur svo upp raust sína með eitthvað alltof persónulegt sem enginn vill vita. „Ég fékk blæðingar í morgun“ „Eruð þið að sofa saman?“ Finnst ég eins og bjáni að vera að spyrja að einhverju persónulegu.

Ég er samt að reyna. Byrja kannski smátt, en minni mig þó reglulega á að spyrja fólkið í kringum mig hvernig það hafi það. Og einbeiti mér að því að hlusta í stað þess að segja frá.

Þetta lærist vonandi.

Þetta var allt í bili. En þangað til næst: hvernig hefur þú það? Er allt gott að frétta?

 

 

 

Leave a Reply