Hvað ef veröldin í kringum þig virtist ókunnug og framandi? Ógnandi jafnvel?
Hvað ef þú gætir ekki sótt fjölfarna staði?
Hvað ef þú upplifðir mest öryggi heima og þætti óþægilegt að mæta fólki á förnum vegi? Sæir fólk koma gangandi á móti þér og vonaðir að þurfa ekki að stoppa og spjalla eða hvað þá faðma það. Vildir helst halda vissri fjarlægð, svona kannski eins og tveimur metrum.
Hvað ef þú þyrftir verulega á klippingu að halda en gætir bara ómögulega farið á hárgreiðslustofu?
Hvað ef þú hefðir verið búin að einsetja þér að mæta á árshátíð um daginn en svo bara alls ekki komist á hana? Hefðir jafnvel ætlað í boð í heimahúsi á undan en ekki heldur komist þangað.
Hvað ef þú hefðir ætlað á tónleika í gærkvöldi en ekkert komist út úr húsi? Endað með því að hlusta bara á plötuna heima í stofu.
Hvað ef þér þætti tilhugsunin um að mæta til vinnu ógnandi? Samskiptin, mannfjöldinn, nálægðin. Hvað ef þú værir svo heppin að mega sinna verkefnum þínum heima, langt frá öðrum? Hvað ef þú kysir frekar tölvupóst en fund?
Hvað ef þú stæðir skyndilega frammi fyrir óvæntum og óviðráðanlegum breytingum sem settu allt líf þitt úr skorðum?
Hvað ef fatnaðurinn sem þú þyrftir að klæðast við dagleg störf væri úr stífum og hörðum efnum sem meiddu þig á viðkvæmum stöðum? Hvað ef þú mættir ekki sinna störfum þínum án hans en biðir þess eins að geta rifið hann af þér.
Hvað ef þú upplifðir ókunnugt umhverfi sem ógnandi, fullt af ósýnilegum skaðvöldum sem erfitt væri að verjast? Vildir helst ekki snerta óþekkta fleti eða rekast utan í annað fólk?
Hvað ef þú kviðir því að hitta aðra af ótta við að ruglast í skrifuðum eða óskrifuðum samskiptareglum? Þér fyndist eins og þú hefðir misst af nýjasta blaðamannafundinum þar sem fyrirmælin voru gefin. Eins og allir aðrir vissu einhvern veginn ósjálfrátt hvernig ætti að hegða sér en þú væri alltaf skrefinu á eftir?
Hvað ef uppáhalds áhugamálið þitt væri ekki á dagskrá í fjölmiðlum og þú fyndir sjaldan fyrir gleðinni við að gleyma þér af spenningi yfir umfjöllun um hugðarefnið þitt? Hvað ef þú gætir heldur ekki hitt aðra til að fagna áhugamálinu saman?
Hvað ef þú tortryggðir almennt skoðanir um viðfangsefni dagsins sem settar væru fram án rökstuðnings eða kannski af annarlegum hvötum, jafnvel til þess að blekkja aðra eða upphefja sjálfan sig? Hvað ef þú vildir helst hlusta á sérfræðinga sem þú gætir treyst setja fram vel rökstuddar staðreyndir, byggðar á nýjustu og bestu þekkingu? Hvað ef þú kysir frekar óþægilegan sannleik en þægilega lygi?
Lýsingarnar hér að ofan gætu átt við ansi marga í dag, á tímum samkomubanns, veirufaraldurs, einangrunar og sóttkvíar.
En hvað ef þér liði alltaf svona, á venjulegum degi?
Hvað ef orsökin kæmi ekki að utan, heldur byggi í þínu eigin eðli?
Hvað ef þú ættir alltaf erfitt með að vera í fjölmenni, fara í klippingu, spjalla við fólk á förnum vegi, tækla ófyrirsjáanlegan vinnudag, mæta á ball eða fara á tónleika? Hvað ef þér fyndist þú alltaf vera að upplifa óvæntar og óþægilegar breytingar á rútínunni þinni?
Hvað ef fötin sem meiddu þig væru ekki sóttvarnarbúningur heldur bara venjuleg, borgaraleg klæði?
Hvað ef áhugamálið þitt væri eiginlega bara aldrei á dagskrá yfir höfuð og alltaf mjög sjaldgæft að finna annað fólk til að tala við um það?
Hvað ef samskiptareglurnar sem rugla þig í ríminu hefðu ekkert með faraldur að gera eða blaðamannafundi, heldur bara almenn mannleg samskipti? Hvað ef reglur hversdagsins um hvernig skal heilsast og umgangast aðra virkuðu á þig eins og framandi siðir?
Þá værirðu kannski á einhverfurófinu.
Og þá væru mjög margir í dag að upplifa hvernig það er að vera þú.