Skjólstæðingur eða sigurvegari?

Eftirfarandi pistill var fluttur í þættinum Lestin á RÚV þann 18. janúar 2021

-Sjáið þið það sem ég sé?

-Er hún ein af okkur?

-Ætli hún eigi að vera einhverf, eða er þetta óvart? Ég googlaði en finn ekkert um það…

Athugasemdum á borð við þessar rigndi inn á hin ýmsu spjallsvæði einhverfusamfélagsins dagana eftir að þættirnir um Drottningarþrautina, Queens Gambit, fóru í loftið á Netflix í haust. Ég var greinilega ekki sú eina sem sá systur mína á einhverfurófinu í aðalsöguhetjunni.

Þættirnir fjalla um stúlku að nafni Beth Harmon, sem elst upp á munaðarleysingjaheimili og er frá fyrsta degi frábrugðin flestum öðrum. Nafn þáttanna vísar til skáklistarinnar, sem Beth uppgötvar fyrir tilviljun, sökkvir sér ofan í og gerir loks að lífsviðurværi, enda gædd einstökum hæfileikum á því sviði. Hún glímir við ýmsar hindranir á leiðinni, ánetjast til dæmis barnung lyfjum og áfengi, auk þess sem styrkleikum hennar á ákveðnum sviðum fylgja jafnframt veikleikar á öðrum.

Hvergi er í þáttunum nefnt með beinum hætti að Beth gæti verið á einhverfurófinu og heldur ekki í kynningarefni frá höfundum eða framleiðendum. Kannski er það meðvitað af þeirra hálfu, kannski erum við loks komin á þann stað að ekki þurfi að taka fram með berum orðum að einhverfa sé hluti af mannlegum fjölbreytileika, rétt eins og húðlitur eða kynhneigð, en kannski eru einhverfu sérkennin sem vissulega eru til staðar einfaldlega hrein og klár tilviljun.

Það gerir þættina eiginlega bara meira heillandi fyrir okkur sem erum á einhverfurófinu, að sjá veruleika okkar speglast af jafnmiklu innsæi og dýpt, án þess að stuðst sé við formlega merkimiða eða staðlaðar klisjur. Beth Harmon bræðir í okkur hjartað.

Vitrings- og nördaklisjan

Einhverfir í kvikmyndum og sjónvarpsefni eru nefnilega yfirleitt mjög klisjukenndir og oftar en ekki eru persónueinkenni þeirra dregin grófum og yfirborðskenndum pensilstrokum.

Oft er það klaufski karlkyns nördinn, eins og Ross í Friends, Sheldon í Big Bang Theory eða kjallaradveljandi tölvugaurarnir í The IT Gang. Meinleysisgrey sem lenda í samskiptaerfiðleikum milli þess sem þeir sturta yfir samferðafólk sitt óumbeðnum hlössum af upplýsingum um áhugamál sín.

Vitringurinn er önnur algeng klisja, allt frá hranalegum læknum, vísindamönnum eða rannsóknarlöggum sem vita allt best, yfir í Rain man týpuna, sem þrátt fyrir sérkennilegar náðargáfur er ósjálfbjarga í daglegu lífi.

Birtingarmynd einhverfu í skáldskap hefur með öðrum orðum aðallega byggst á afmörkuðum hluta einhverfurófsins og þannig stuðlað að langlífi úreltra staðalímynda.

Eins og gjarnt er um minnihlutahópa hafa einhverfir þannig mátt búa við að saga þeirra sé skrifuð af öðrum en þeim sjálfum, sett fram á yfirborðskenndan hátt og jafnframt leikin af fólki sem ekki tilheyrir sjálft umræddum hópi.

Það þætti eflaust undarlegt í dag að velja hvítan mann til að leika Martin Luther King, bara sminka hann vel og láta gott heita. Þannig vinnubrögð eru þó enn furðulega lífseig þegar kemur að einhverfu og fötlun, hvort sem er á leiksviði eða í myndum.

Sia og nepotíski ableisminn

Nýlegt dæmi um nákvæmlega þetta er kvikmyndin Music eftir tónlistarkonuna Siu, sem er einmitt verið að frumsýna þessa dagana. Kvikmyndin fjallar um samband tveggja systra, en sú eldri sem hrærist í skuggaheimi fíkniefna fær skyndilega forræði yfir þeirri yngri sem myndin heitir eftir. Music þessi er einmitt einhverf, en þó leikin af óeinhverfri stúlku. Það hefur valdið miklum usla innan einhverfusamfélagsins, auk þess sem Sia segist hafa leitað ráða um persónusköpunina til samtakanna Autism Speaks, sem einhverfir mega helst ekki heyra nefnd. Þau samtök verja umtalsverðum fjármunum sínum aðallega í að berjast gegn einhverfu, meðal annars með erfðarannsóknum, frekar en að stuðla að bættum lífsgæðum einhverfra og aukinni viðurkenningu af hálfu samfélagsins.

Ráðgjöfin sem Sia hefur sótt sér hefur enda ekki reynst betur en svo að svör hennar við gagnrýni einhverfra á leikkonuvalinu og undirbúningsvinnunni gera einungis illt verra, svo hún sekkur dýpra og dýpra í kviksyndið með hverri yfirlýsingunni sem frá henni kemur. Framganga hennar er skólabókardæmi um ableisma, mismunun og fordóma gagnvart einhverfum. Hún gekk svo langt að líkja því við illa meðferð að ráða einhverfa leikkonu í hlutverkið, þar sem viðkomandi myndi aldrei geta funkerað í slíku starfi. Þó eru fjölmargir starfandi leikarar á rófinu og auk þess stórfurðulegt að ekki sé hægt að koma til móts við þarfir einhverfra á tökustað myndar sem ætlað er að vekja athygli á þessum sömu þörfum.

Af stiklunni að dæma er kvikmyndin reyndar engan veginn tímamótaverk fyrir einhverfa heldur frekar klisjukennt tilfinningaklám, þar sem umönnun ósjálfbjarga systkinis bjargar afvegaleiddri manneskju frá glötun. Ekki ólíkt því þegar hinn þykjustu-einhverfi Dustin Hoffman gerði heiðarlegan mann úr Tom Cruise fyrir 30 árum síðan

Nýjasta afsökun Siu á vali sínu á leikkonunni Maddie Ziegler – og jafnframt sú fáránlegasta – verðskuldar eiginlega einhvers konar verðlaun. Þar segir hún að þrátt fyrir að valið uppfylli vissulega skilgreiningar á ableisma, þá sé það frekar svokallaður nepotismi, eða kunningjaráðning. Hún kunni bara svo vel að meta Maddie, sem hún hefur oft unnið með áður. Þetta minnir á söguna um fína manninn sem leiðrétti leiðan orðróm um að sonur hans væri lúsugur, með orðunum að þetta hefði ekki verið lús, heldur flatlús.

Dýpri vísanir í stað klisjukenndra merkimiða

Kannski er ástæða þess að skaparar Beth Harmon í Drottningarþrautinni passa sig á að nefna einhverfu hvergi berum orðum einmitt þessi: Það borgar sig ekki að gerast óumbeðinn talsmaður hóps sem þú tilheyrir ekki.

Á meðan Sia stígur í alla pollana með fangið fullt af klisjum, virðist taflið óneitanlega betur úthugsað í Queens Gambit. Þar er fyrst og fremst verið að segja sögu af áhugaverðum persónum með margs konar sérkenni og þar á meðal einhverfu.

Þessi nálgun hefur áður sést í skandinavísku myndefni, eins og Milennium þríleiknum um utangarðskonuna Lisbeth Salander og Brúnni, þar sem sérlundaða lögreglukonan Saga Norén fer á kostum. Þessar persónur mætti kalla baráttukonur með erfiða bernsku, en báðar búa þær Lisbeth og Saga yfir sterkum einhverfueiginleikum, sem rista mun dýpra en staðlaðir merkimiðar á borð við hljóðeinangrandi heyrnatól eða risaeðluáráttu.

En hverjir eru þessir auðþekkjanlegu eiginleikar?

Í stuttu máli sagt er einhverfa söguhetjan áberandi filterslaus á einn eða annan hátt. Hún er afburðarfær í sumu en tilfinnanlega klaufsk í öðru, aðallega samskiptum. Hún átti erfiða æsku og jafnvel sögu um ofbeldi, hefur sterka réttlætiskennd og berst gegn hinu illa í þágu þess sem rétt er og satt. Hún klæðist gjarnan einsleitum fötum og borðar einhæfan mat. Hún lendir ítrekað í árekstrum af völdum misskilnings.

Ef ég þarf að lýsa einhverfu í stuttu máli finnst mér einmitt gott að nota orðið filterslaus. Við skynjum umhverfið okkar á filterslausan hátt miðað við aðra. Hljóð, ljós, snerting, lykt og önnur skynáreiti skella harðar á okkur en flestum öðrum. Við virðumst ekki geta útilokað áreiti jafn vel, sem skapar streitu, þreytu og álag. Fyrir óeinhverfa mætti líkja því við að eyða öllum dögum á veitingastað með hárri tónlist, skrýtinni lýsingu, mannmergð og sterkri lykt, í óþægilegum fötum að borða furðulegan mat.

Filtersleysið virkar svo líka í hina áttina. Við síum ekki jafnmikið það sem frá okkur fer, erum bókstafleg og hreinskilin og tölum frekar til að miðla upplýsingum en að rabba um daginn og veginn. Þess vegna finnst óeinhverfum við oft hranaleg, ókurteis og jafnvel dónaleg. Þau viðbrögð valda okkur hins vegar undrun, þar sem við skiljum illa kröfur samfélagsins um að tala undir rós eða beygja sannleikann að smekk þess sem rætt er við.

Flest erum við einstaklega fróðleiksfús á allt það sem vekur okkur forvitni. Við tregðumst reyndar yfirleitt við að læra hluti sem okkur leiðist, en ef áhuginn vaknar þá eru engar hömlur á fróðleiksþorstanum. Þannig getum við orðið heltekin af ákveðnu áhugamáli svo jaðrar við þráhyggju. Hugsun okkar er líka filterslaus á þann hátt að hún flæðir á ólíkum hraða en flestra annarra. Við vinnum í öðrum takti, sem getur valdið árekstrum í samstarfi ef skilninginn skortir.

Loks er oftast til staðar í okkur grundvallarþversögn sem felst í því að þrátt fyrir umfangsmikla þekkingu á hinu og þessu, þá skortir okkur oft svokallaða stýrfærni, sem þarf til að koma hugsunum í verk.

Þegar allt þetta er dregið saman birtist þannig heildarmyndin af sérfróða og velviljaða klaufanum, sem þolir illa áreiti og tjáir sig á hranalegan hátt að dómi umhverfisins. Þessi einstaklingur dregur sig gjarnan í hlé, ekki endilega af því að hann vilji vera einn, heldur frekar vegna þess hvað hann er hvekktur á sífelldum árekstrum sem oftar en ekki eru á misskilningi byggðir.

Í mínum huga er það engin tilviljun að Beth Harmon skuli heillast af vel afmarkaðri veröld taflborðsins, þar sem fjöldi reita er þekktur og samskiptareglur taflmannanna fyrirfram ákveðnar. Fyrirsjáanleg veröld veitir einhverfum huga öryggi og ró. Í raunheimum þarf hún hins vegar að þreifa sig áfram andspænis tilviljanakenndu áreiti, sem hún bregst við með neyslu deyfandi efna.

Söguhetjan Beth er ekki skrifuð til að bjarga öðrum, en hún þarf hins vegar að bjarga sér sjálf. Líkt og drottningin á taflborðinu fetar hún veginn öðruvísi en aðrir og á endanum er það einmitt sérstaðan sem verður hennar gæfa. Hún er fullkomin eins og hún er.

Leave a Reply