
Þegar kisan mín hún Mía var nokkurra ára byrjaði hún að pissa á óvænta staði innandyra. Þetta olli að sjálfsögðu bæði ama og áhyggjum hjá mér og öðru heimilisfólki. Mín fyrstu viðbrögð voru nokkurn veginn þrískipt: Í fyrsta lagi skammaðist ég mín og vildi helst ekki að neinn vissi af þessu. Í öðru og þriðja lagi þá ályktaði ég að nú væri bara komin upp sú staða að kötturinn minn væri gallaður og að ég væri lélegur kattareigandi.
Til að leysa vandann datt mér helst tvennt í hug; að prófa nýjan kattasand í kassann og að skamma kisu og venja hann af þessum ósóma.
Með öðrum orðum þá einblíndi ég á vandann, á hegðunina sem var óæskileg og að finna ráð til að breyta henni. Mitt ósjálfráða viðbragð var atferlismótun.
Fram liðu stundir. Oftast var allt í sóma og bara pissað í kassa, en stundum komu þó erfiðir tímar með óvæntum glaðningi í skóm, fatahrúgum og víðar.
Vandinn varð með tímanum sýnilegri og loks var öllum sem komu inn á heimilið ráðlagt að forðast að útsetja eigur sínar fyrir skemmdum. Til dæmis var komið í ljós að föt sem lágu á gólfi voru augljós skotmörk, sem og skór með sterkri lykt.
Umræða
Það var reyndar ekki fyrr en ég fór að ræða vandann opinskátt sem einhver benti mér á að kötturinn væri líklega með tilhneigingu til að fá blöðrubólgu. Ha?
Kettir eru víst bæði veiðidýr og bráð, sem þýðir að þeir hylja veikleika sína með öllum tiltækum ráðum, svo sem eins og með að fela veikindalyktandi piss með því að koma því fyrir í táfýluskóm.
Sniðug kisa. Veslings kisa.
Raunhæfar lausnir
Í framhaldi af þessari uppgötvun fór loks að sjást til (h)lands hjá okkur kisu. Hún fékk meðferð við blöðrubólgunni og ég lærði meira um eðli hennar. Nú veit ég ekki bara að þetta er blöðrubólga, heldur líka hvers vegna hún kemur upp. Kisur sem eru viðkvæmar fyrir áreiti, streitu og breytingum í umhverfi sínu eiga víst til að fá illt í blöðruna.
Með öðrum orðum er víst ekki bara hægt að vinna gegn umhverfisslysum með lækningum, heldur líka að fyrirbyggja þau með markvissum aðgerðum. Gestagangur, smíðavinna innandyra, veisluhöld og hvers kyns uppbrot á venjubundinni rútínu kisu getur allt komið henni úr jafnvægi og ýtt undir bólgurnar. Rólegt umhverfi og úrræði eins og róandi ferómón sem virka sefandi á taugakerfið hennar eru fyrirbyggjandi aðgerðir.
Hegðun er tjáning á líðan

En af hverju er ég að skrifa allt þetta um köttinn minn á bloggsíðu um einhverfu? Jú, vegna þess í fyrsta lagi að: Allir kettir eru á einhverfurófi.
Í öðru lagi vegna þess að sagan af Míu og blöðrubólgunni er svo lýsandi dæmi um það hvernig atferlismótun misskilur oft undirliggjandi ástæður hegðunar.
Ég hlustaði um daginn á fagaðila ræða það hvernig hegðun einhverfra barna væri tjáning. „Hegðun er tjáning“ sagði hann og tók dæmi um það þegar barn grætur til að fá að leika sér með IPad. Þá er gráturinn tæki til að tjá vilja og fá sínu framgengt. Eins gat óæskileg hegðun í skólastofu verið tæki til að láta vísa sér á dyr.
Fyrir utan hvað mér fannst hin völdu dæmi vera neikvæð, þ.e. barn að fá sínu framgengt með ólátum, þá var ég nokkuð sammála fullyrðingunni um að hegðun væri tjáning.
Hins vegar fannst mér vanta aftan á setninguna, þar sem hún var í raun bara hálf. Hegðun er vissulega tjáning, en það sem er mikilvægast er orsökin að baki tjáningunni. Hegðun er tjáning á líðan.
Hver er líðanin að baki því að barn lætur illa til að láta reka sig út úr skólastofu? Líður því barni vel, eða er það að reyna að finna færa leið út úr erfiðum aðstæðum?
Vandinn hjá Míu kisu var alls ekki atferlið, þó svo að það hafi verið það fyrsta sem ég sá. Pollur í inniskónum mínum var vissulega vandamál, en lausnin lá þó ekki alveg í augum uppi. Vandinn var í raun óreiða vegna smíðavinnu sem kom kisu úr jafnvægi. Henni leið illa, hún veiktist og eðlisávísun hennar bauð henni að fela slóð sína með því að pissa þar sem hennar lykt gæti drukknað í einhverju öðru.
Viðleitni mín til að hasta á hana, gera tilraunir með kassann hennar eða sýna pirring í hennar garð juku bara á vandann. Ég var ekki að leysa vandann, heldur auka á hann.
Hegðun sem afleiðing frekar en vandi
Mjög mikið af umræðu og fræðslu um einhverfu einblínir á hegðun sem vandamál sem þurfi að meðhöndla og breyta. Það hvernig einhverfi einstaklingurinn lítur út og kemur fyrir er aðalviðfangsefnið, en að því er virðist er horft framhjá undirliggjandi líðan.
Setningar eins og „við getum ekki bara pakkað þessum krökkum í bómull, þau þurfa að læra að mæta í veislur eins og annað fólk“ eru angi af þessu viðhorfi.
Þau einhverfu þurfa að læra að þola umhverfið. Umhverfið þarf ekki að laga sig að þeim.
Annars hefði væntanlega verið sagt „við getum ekki bara alltaf verið með hávaða og læti í veislum, það hentar nefnilega ekki öllum“.
Svipað má segja um t.d. að naga neglur. Barn sem nagar neglur er oft kvíðið eða órólegt. Að einblína á hegðunina eykur líklega bara á vandann, kvíðann eða vanlíðanina og ýtir því undir þörfina fyrir að naga. Inngripið er þá frekar trigger en lausn.
Snúum orðræðunni við
Við verðum að fara að snúa því við hvernig við tölum um börn og vanda þeirra. Eitt dæmi um það – og ekki af minni sortinni – eru lög um börn MEÐ fjölþættan vanda. Eru það börnin sem eru með vanda? Eru það ekki miklu frekar börn Í vanda? Um leið og við tölum um að börnin séu Í vanda, þá er það á okkar hinna valdi að leysa hann og gera börnunum lífið léttara. Á meðan við hengjum vandann á börnin, sem eitthvað sem þau eru MEÐ og fylgir þeim, þá eru þau sjálf vandamálið, kjarni vandans.
Samfélagið gerir allt of mikið af því að tala svona. Við þurfum að breyta því. Taka vandann í fangið sem verkefni heildarinnar svo öllum geti liðið vel.
Er það ekki eitthvað?