Einn af rauðu þráðunum í reynslusögum kvenna á einhverfurófi, sem margar hverjar greinast á fullorðinsaldri, oft eftir langa og erfiða baráttu við að finna sér stað í tilverunni, er að þeim er ekki trúað, greiningin ekki tekin gild. Víða er líka erfitt að komast í greiningu og fordómar fagaðila sterkir, í takt við karllæga slagsíðu sem ríkt hefur gagnvart einhverfu frá því henni var fyrst lýst.
Sjálf hef ég ekki tengt við þessar frásagnir, sem betur fer. Ég upplifi almennt mikinn stuðning og jákvæð viðhorf, svo ekki sé minnst á jákvæð viðbrögð við til dæmis þessu bloggi og því að ég skuli vera tilbúin að segja sögu mína upphátt. Fyrir það er ég mjög þakklát. Hef reyndar gantast með það að opinberun mín á þessari greiningu hafi kannski bara verið eins og þegar George Michael kom út úr skápnum – bara svona jájá, það vissu nú allir…
Eníhú, það sem er sagt við mann er ekki alltaf það sama og það sem sagt er um mann. Eins og ég hef skrifað um áður þá fer umtal og sögusagnir glettilega oft framhjá mér, sem mögulega er fylgifiskur þess að forðast „smalltalk“. Sem er oft bara ágætt.
Er ég kannski að þykjast vera einhverf?
Það eru víst einhverjir þarna úti sem halda það. Eftir að hafa velt þeirri staðreynd fyrir mér í smá tíma, hef ég komist að því að mér finnst það bara allt í lagi. Eins og oft er sagt; það sem öðru fólki finnst um þig kemur þér ekkert við. Þannig er það bara.
Leiðin að greiningu er sjaldnast stutt, eða bein. Einmitt þess vegna tjái ég mig opið um mína leið, minn aðdraganda, mína niðurstöðu og væntanlega – einhvern tímann – mína lausn. Vegna þess að þetta er ekki svar sem liggur í augum uppi, það eru fáir sem þekkja til og fáir sem vísa rétta leið.
Minni leið að greiningu má skipta upp í nokkra áfanga. Ef ég rek mig frá núinu og afturábak, er stysti og nýjasti áfanginn sá sem lá frá fyrsta gruni um að vera á einhverfurófi og að því að leita til fagmanns. Þar á undan var lengri tími sem einkenndist af meðvitund um einhverfurófið, lærdómi frá sjónarhorni aðstandanda og viðleitni til að vera vel upplýst mamma og góður bakhjarl. Þar á undan er svo kaflaskipt tilvera, þar sem fléttast saman velgengni og vanlíðan, bjartsýni og kvíði. Og allskonar.
Hver fyrir sig
Einhverfugreining á fullorðinsaldri er í mínum huga fyrst og fremst afar persónulegt ferðalag, á forsendum og að frumkvæði einstaklingsins sjálfs. Leið til að kynnast sjálfum sér, læra betur á sjálfan sig og ekki síður á aðra. Það hvort við opinberum greininguna ræður síðan hvort hún verður líka tæki fyrir aðra að læra á okkur. Sjálf valdi ég þá leið að ræða greininguna strax, sem hefur mikið með minn eigin persónuleika að gera, en tengist líka því hvar ég er stödd í lífinu einmitt núna.
Oft er ég spurð hvað fólk eigi að gera ef það grunar að fullorðinn einstaklingur sé á einhverfurófi, hvort eigið að hvetja viðkomandi í greiningu, benda á þennan möguleika og þar fram eftir götunum. Ég er ekki viss um að það sé til eitt svar við þeirri spurningu, þekki bæði góðar og slæmar reynslusögur af slíkum tilraunum, þ.e. að ýta við fólki (fullorðnu) að leita sér greiningar.
Mín leið til að ýta við fólki er að upplýsa, segja frá. Nota frásagnir og reynslusögur og vona að það opni augu. Ekki til að leiðrétta fólk, laga það eða hafa vit fyrir því, heldur til að breikka sjóndeildarhringinn og reyna að stuðla að auknum skilningi. Þar finnst mér sterkasta leiðin og sú hreinlegasta að segja frá mér sjálfri. Mitt sjónarhorn er bara eitt af ótalmörgum, en ég á mína sögu sjálf og þar með réttinn til að deila henni.
Á eigin forsendum
Vangaveltur undanfarið, um hvort mér eigi að finnast eitthvað um það hvað fólki finnst (ef því finnst þá yfirhöfuð eitthvað) kristallast eiginlega í þessu: Einhverfugreiningin er mál hvers og eins, persónuleg og í einkaeigu. Þetta er mín greining, það tók mig talsverðan tíma að finna hana og mér þykir vænt um hana. Fyrir mig var hún púsl sem vantaði í heildarmyndina, skrúfa sem var laus. Ég hef val um það hvort ég tala um hana eða ekki, sennilega myndi ég gera minna af því ef hún væri ekki hluti af stærri heild. Þeirri heild að konur og stúlkur á einhverfurófi hefur skort hlustun, skort rödd.
Með tímanum verður þetta sem ég syng, með eigin nefi, vonandi hluti af mun stærri kór, í lagi sem fleiri þekkja.