Ferðalangur á jörðinni

Á myndinni sést stúlka horfa gegnum myndavélarlinsu. Umhverfið er eyðilegt. Ef ekki væri þarna malarvegur, girðing og rafmagnsstaurar mætti halda að telpan væri ein í heiminum. Hefði jafnvel dottið af himnum ofan, ein með myndavél og sinn eigin skugga. Ferðalangur á jörðinni.

Það glittir í heiðan himin milli ljósra og dökkra skýjabakka. Veðrið virðist kyrrt, hvorki hlýtt né sérlega kalt af klæðaburði stúlkunnar að dæma. Þykk peysa girt ofan í gallabuxur. Hún virðist enginn sérstakur snyrtipinni, það er blettur á peysunni eftir eitthvað sem hún hefur misst ofan á sig og hárið hefur hún dregið aftur í losaralegt tagl. Neglur hennar eru nagaðar upp í kviku og ef myndavélin væri ekki fyrir andlitinu sæist pírður svipur. Henni finnst erfitt að horfa upp í ljósið. Hendurnar halda þétt um myndavélina, enda takkinn stífur og fingurnir linir. Átakið við að smella af skekkir stundum myndirnar. Það er spenna í kroppnum. Hún er að vanda sig.

Myndir

Það er gott að taka myndir. Heimurinn er oft svo skrýtinn og illskiljanlegur, erfitt að fatta fólk og skilja hvað gengur á. Myndir hjálpa.

Reyndar þarf hún ekki alltaf filmu til að frysta augnablik, augun taka eftir öllu og heilinn skráir smátt og stórt. Stundum umhverfi og aðstæður – strik á gangstéttum, númer á bílum, lengd skrefa, kvisti á panel sem minna á augu. Hún er fundvís, á auðvelt með að greina mynstur og kemur því fljótt auga á hvaðeina sem stingur í stúf.

Stundum skráir heilinn athafnir, eigin eða annarra. Sérstaklega þegar henni er brugðið. Þegar hún hefur gert eitthvað af sér, sagt eitthvað rangt. Það skrýtnasta er að þetta ranga er oftast eitthvað rétt sem má ekki segja. Af hverju ekki? Á hún ekki að segja satt? Ráðgáturnar af þessari sort virðast endalausar. Engin leið að sjá þær fyrir, kannski bara best að segja ekki neitt. Bara ef það væri nú hægt.

Orð

Sumar myndir eru orð, texti sem fangar augnablik eða atburð. Orð mynda sögur. Það er gaman að leika við orð, leika með orð, því þau segja satt. Það sem stendur á blaðinu er það sem það segist vera. Um töluð orð virðast gilda aðrar reglur, fólk segir eitt en meinar annað. Það finnst henni erfitt að skilja.

Sagt er að hún hafi byrjað að tala eins árs gömul og ekki þagnað síðan. Það er eflaust rétt, enda er ein af stærstu þrautum lífsins að læra að stöðva orðaflóðið. Að hemja sig og tala ekki út í eitt, um allt, við alla, ofan í hvern sem er.

Það er bara eitthvað svo stutt frá hugsunum hennar til munnsins. Og hugurinn er á hraðspóli. Hann tekur eftir öllu, ber saman, flokkar og túlkar, reynir að finna reglu. Gera sig skiljanlegan. Skilja aðra. Það er eilífur spjallþáttur þarna inni og stundum gleymist að slökkva á útsendingunni. Hún veit hvenær fólk hættir að hlusta, sér svipinn leita burt og verður þá alltaf pínu sár þó hún geti eiginlega ekki stoppað. Hún hefur mikið að segja.

Hún man líka fullt af orðum sem hún skilur ekki. Orð á ensku til dæmis. Löng og flókin orð sem bíða í heilanum þar til  hún finnur merkinguna, oft fyrir tilviljun, oft löngu síðar. Þá festist mynd við orðið sem ratar á réttan stað í spjaldskránni.

Asperger

Asperger er ekkert sérstaklega langt orð en merking þess er margvísleg. Reyndar er það sérnafn, eftirnafn, auk þess að vera notað sem heiti á heilkenni á vægari enda einhverfurófsins.

Asperger var ekki til í spjaldskránni í heilanum á stúlkunni. Sem slíkt hefði það verið pínu snúið og þar með ógleymanlegt. Merking þess skýr en um leið mjög breytileg og ólík eftir einstaklingunum sem það er notað til að lýsa.

Maðurinn Hans Asperger var ekki „með Asperger“. Hann var bara einn af þeim fyrstu sem tengdi saman einkennandi þætti í fari ákveðins hóps fólks sem átti erfitt með félagsleg samskipti en var oft að öðru leyti mjög klárt.

Asperger var vissulega mjög klár, en ekki á þennan sama hátt. Það er ekki víst að hann hafi lagt á minnið öll bílnúmerin í hverfinu sínu, eða geymt löng útlensk orð í bið eftir merkingu. Og Asperger kom ekki endilega auga á stúlkurnar eins og þessa, sem var næstum alveg eins og allir hinir en samt bara ekki alveg. Sem var ofurfljót að læra sumt en í mesta basli með annað. Sem faldi vandræði sín vandlega og lét sem ekkert væri. Sem gerði sitt besta til að falla í fjöldann með aðstoð mynda og orða og heila sem aldrei hætti að horfa og flokka og leita eftir samhengi. Sem var með hausinn svo fullan af orðum að þau duttu í sífellu út um munninn.

Það tók hana langan tíma að sjá að orðið Asperger á ekki bara við um nördalega stráka sem tala endalaust um tölvuleiki og er illa við að matartegundir snertist. Það á líka við um stúlkur sem halda fast í myndavélina sína eins og ferðalangur sem fallið hefur til jarðar og finnst þær alltaf vera alveg bráðum að ná því að tala eins og innfæddir. Haga sér eins og hinir. Líta eðlilega út.

Hálf ævin

Hans Asperger var um fertugt þegar hann lýsti heilkenninu sem ber nafnið hans. Ég var komin vel yfir fertugt þegar ég vissi fyrir víst að linsan sem ég sé lífið í gegnum er Aspergerheilkenni.

Um það veit ég ýmislegt, eins og marga aðra hluti, en framundan er samt yfirferð á notendahandbókinni og meðfylgjandi endurskoðun á ýmsu í fylgsnum huga og hjarta. Þessi síða er hluti af þeirri vinnu.

Það er pínu vandræðalegt að hafa ekki fattað þetta fyrr. Að hafa ekki fyrr séð hvað myndavélin mín smellti stundum skakkt af. Hvað sjónarhornið mitt var oft frábrugðið öðrum. Kerfisbundið og óbreytanlega. Óhagganlegt.

Mér finnst samt stúlkan hafa staðið sig ótrúlega, ótrúlega, ótrúlega vel. Og mig langar að teygja mig aftur í tímann til að knúsa litla ferðalanginn, klappa henni á bakið og segja: þetta verður allt í lagi.

 

 

 

3 athugasemdir við “Ferðalangur á jörðinni

  1. Já! Þu segir nokkuð! Kemur mér dáldið á óvart, en þú hefur klárlega notað þetta þér i hag, með þinn einstaka límheila (og einkenni) og góðu nærveru, elsku frábæra vinkona❤ -luv

Leave a Reply to María KristínCancel reply