Hvers vegna segja frá?

Þetta er kannski undarleg spurning fyrir manneskju sem þolir ekki leyndarmál og kann ekki að ljúga. En ég ætla samt að reyna að svara henni eftir bestu getu.

Hvers vegna þegja?

Ég hef aldrei kunnað að ljúga, nokkuð sem greiningin hefur hjálpað mér að skilja. Ég gat til dæmis aldrei neitað því að ég væri ólétt ef ég var spurð, jafnvel þótt það gerðist óþarflega snemma. Fannst það bara eitthvað svo rangt af mér að afneita ófæddu barni. Ekki það að spyrjandinn hefði neina sérstaka kröfu á að vita af því, jafnvel einhver sem tengdist mér lítið sem ekkert. En samt. Væri ég spurð varð ég að segja satt. Sama með einhverfugreininguna, myndi ég segja nei ef einhver spyrði?

Að vera samkvæm sjálfri mér

Ég á syni sem deila með mér þessari greiningu. Við ræðum þeirra greiningu opinskátt og það hjálpar þeim án efa við að skilja sjálfa sig og umheiminn – og umheiminum að skilja þá. Einhverfan er hluti af tilverunni, hluti af einstaklingnum og persónugerðinni. Ekkert til að skammast sín fyrir, en vissulega eitthvað sem gott er að vera meðvituð um og vinna með. Það hlýtur að vera eðlilegasta mál fyrir þá að fá að segja frá því að mamma sé líka á einhverfurófinu, þó svo ég hafi greinst á eftir þeim. Vitneskjan gefur þeim líka viðmið. Það er gott að geta borið sig saman við aðra, ekki síst einhvern sem hefur lengri reynslu til að miðla og hefur sopið ýmsar fjörur.

Konur og stúlkur eru ósýnilegar

Mér finnst mikilvægt að saga stúlkna og kvenna á einhverfurófi sé sögð, við höfum verið ósýnilegar allt of lengi. Það er eins með rófið og hjartasjúkdómana, þekking fagaðila og þar með almennings byggist fyrst og fremst á rannsóknum á karlkyninu. Þetta er einfaldlega jafnréttismál.

Konur á einhverfurófi eiga allt of margar sögu um einelti, misnotkun, ofbeldi í nánum samböndum, kvíða, þunglyndi, áfallastreitu og svo mætti lengi telja. Samfélagið, ekki hvað síst skólaumhverfið, þarf að læra að koma auga á þessar stelpur og veita þeim viðeigandi stuðning. Áður en lesblinda varð þekkt hugtak voru krakkar með námsörðugleika kallaðir tossar og álitnir latir. Í dag dytti engum í hug að stimpla lesblind börn á þann hátt og aðstæður þeirra í skóla og lífinu almennt hafa þar með batnað til muna.

Meðvitund um og þekking á einhverfu sem eiginleika sem ekki nær alltaf þeim „styrk“ að geta talist fötlun þarf að aukast. Ég vil hjálpa til að vinna að því. Mér verður bara illt að hugsa til þess að stelpur í öllum skólum landsins séu að feta sig eftir þeirri braut sem ég gekk á undan þeim. Þær eiga betra skilið. Ef það hjálpar þeim að ég segi mína sögu þá er takmarkinu náð.

Fordómar?

Auðvitað velti ég því fyrir mér hvort opinberun á einhverfugreiningu komi sér illa fyrir mig. Ég starfa meðal annars á pólitískum vettvangi þar sem litið er á það sem íþrótt að klekkja á næsta manni. Er ég að gefa á mér óþarfan höggstað? Mögulega, en í raun er það ekkert nýtt. Þessi Akkilesarhæll hefur alltaf fylgt mér. Styrkleikar mínir sem einstaklings verða áfram þeir sömu og veikleikarnir líka. Sjálf þekki ég þá alltaf betur og betur og samstarfsfólk getur grætt á því að vita hvernig ég tikka. Hvort fólk síðan notar upplýsingarnar til góðs eða ills verður bara að koma í ljós og segir meira um aðra en mig.

Hér er ég – hvar ert þú?

weird light

Eftir að augu mín opnuðust fyrir vægari einkennum einhverfu, eins og þeim sem fylgja Aspergerheilkenninu, ekki síst hjá konum, á ég líka auðveldara með að koma auga á þau hjá öðrum. Vitað er að fjöldinn allur af fólki hefur farið í gegnum lífið án þess að þessi sérkenni hafi leitt til greiningar. Margir fullorðnir sem óska eftir mati á sjálfum sér gera það í framhaldi af því að einhverfa greinist hjá barni þeirra, eða börnum.

Ég var búin að setja mig mjög vel inn í veruleika fólks með Aspergerheilkenni og taka alls konar sjálfspróf sem öll flokkuðu mig sem normal, enda byggð á einkennum drengja og karla. Þekking á einkennum stúlkna og kvenna hefur vaxið mikið síðustu ár og undanfarið er ég eiginlega búin að lesa mína eigin ævisögu aftur og aftur í bókum og frásögnum kvenna sem hafa greinst seint og um síðir. Það er innan við ár síðan ég varð sjálf nokkuð viss um þessa greiningu og bara nokkrar vikur síðan ég fékk þann grun staðfestan. Mér líður eins og ég sé komin heim og vil gera mitt til að fleiri nái þeim áfanga.

Ég kveiki hér með á vitanum mínum – hér er ég.

Leave a Reply